Fréttir
  • Skilti um ófæran eða lokaðan veg

Vegum verði lokað með slá

stefnt að því í vetur að loka vegum ef þess þarf með slá og merki

16.9.2013

Stefnt er að því að setja upp vegslár á nokkrum stöðum á landinu svo hægt sé að loka vegum á þann hátt. Á skiltum kæmi fram hvort að vegurinn er ófær eða honum einfaldlega lokað og allur akstur því bannaður.


Í slæmum veðrum verða eða þegar vegur verður ófær af öðrum ástæðum hefur reynst erfitt að ná til erlendra ferðamanna hér á landi. Með aukinni vetrarferðamennsku eykst þetta vandamál. Reynt er að ná til ferðamanna með prentuðum upplýsingum sem komið er fyrir á stýri bílaleigubíla og hjálpar það til við að kynna erlendum bílstjórum aðstæður á Íslandi. 

En sökum þess að ferðamenn hafa í auknum mæli lent í vandræðum til dæmis á Dettifossvegi að vetri til hefur verið ákveðið að setja upp vegslár með skilti til að ná til vegfarenda á öruggan hátt. Merkin verða tvennskonar því ýmist eru vegir merktir ófærir eða þeim er lokað. Sérútbúinn bíll getur komist þótt vegur sé ófær öllum venjulegum bílum en sé vegur lokaður er umferð um hann bönnuð - öllum ökutækjum.

Þetta fyrirkomulag er fyrst og fremst hugsað fyrir fjallvegi til dæmis Víkurskarð og þá ferðamannavegi eins og Dettifossveg sem getur litið sakleysislega út þar sem farið er inn á veginn þótt hann sé kolófær þegar lengra er komið.

Með fréttinni má sjá tillögu að skiltum sem sett verða á þannig slá að hún loki ríflega annarri akreininni. Sláin verður þannig að enginn kemst framhjá án þess að gera sér grein fyrir því hvað er í gangi.